Yfirlýsing Yfirtökufólks Wall Street: Declaration of the Occupation of NYC in Icelandic

Yfirlýsing Yfirtökufólks Wall Street

Þegar við komum saman í einhug til að tjá tilfinningu fyrir almennu óréttlæti, megum við ekki missa sjónir á því sem sameinar okkur. Við ritum þessi orð svo að allir þeir sem finnst þeir ranglæti beittir stórfyrirtækjum heimsins viti að við erum bandamenn ykkar.

Sem sameinað alþýðufólk, göngumst við veruleikanum: Framtíð mannkyns þarfnast þess að þeir sem tilheyra því vinni saman; samfélagsgerðin verður að vernda réttindi okkar, og þegar henni er spillt, þurfa einstaklingar að verja réttindi sín og sinna nágranna; stjórnvöld í lýðræðisríkjum fá völd sín frá fólkinu, en stórfyrirtæki leita ekki samþykkis til að hafa auð af fólki eða Jörðinni; ómögulegt er að stunda lýðræði í sinni sönnu mynd þegar gangverki þess er stýrt af auðmagni. Við komum til ykkar á tíma þegar stórfyrirtæki, sem taka hagnað fram yfir fólk, eiginhagsmuni fram yfir réttlæti, og kúgun fram yfir jöfnuð, stýra ríkisstjórnum okkar. Við höfum safnast friðsamlega saman, í fullum rétti, til að gera þessar staðreyndir heyrinkunnar.

Þau hafa tekið af okkur heimilin með ólöglegu eignarnámi, þótt þau hafi ekki upprunalegt veð undir höndum.

Þau hafa tekið við ríkisaðstoð úr sjóðum skattborgara og halda áfram að greiða stjórnendum sínum risavaxnar bónusgreiðslur.

Þau hafa á vinnustöðum greitt götu ójöfnuðar og misréttis á grundvelli aldurs, húðlitar, kyns, kyngervis og kynhvatar.

Þau hafa af vanrækslu eitrað fæðukeðjuna og með einokun rutt burt grunnstoðum búskaparhátta.

Þau hafa grætt á pyntingum, fangelsun, og illri meðferð óteljandi dýrafjölda, og dylja gjörðir sínar af ásettu ráði.

Þau hafa ítrekað reynt að taka af launþegum réttinn til að semja um betri laun og öryggi á vinnustað.

Þau hafa haldið nemendum í gíslingu með lánaskuldum upp á tugþúsundir bandaríkjadala fyrir háskólanám, en nám er mannréttindi.

Þau hafa ávallt fært störf úr landi og notað það til að ná fram skerðingu á heilsutryggingu og launum starfsmanna sinna.

Þau hafa beitt áhrifum sínum á réttarkerfið til að hljóta sama rétt og manneskjur, en án saknæmis eða ábyrgðar.

Þau hafa eytt milljónum dollara í lögfræðingateymi sem leita leiða til að fara á svig við samninga um heilsutryggingu.

Þau hafa selt einkalíf okkar eins og vöru.

Þau hafa notað herinn og lögregluna til að hindra fjölmiðlafrelsi.

Þau hafa viljandi neitað að kalla inn gallaðar vörur, og með því móti stefnt mannslífum í háska af gróðafíkn.

Þau ákvarða efnahagsstefnu, þrátt fyrir þær hörmungar sem stefna þeirra leiðir til og mun áfram leiða til.

Þau hafa gefið fúlgur fjár til stjórnmálamanna, sem bera ábyrgð á því að setja reglur um starfsemi þeirra.

Þau halda áfram að hindra notkun nýrra orkugjafa svo að við séum áfram háð olíu.

Þau halda áfram að hindra notkun óeinkaleyfisvarðra lyfja sem gætu bjargað mannslífum eða linað þjáningar, í þeim tilgangi að vernda fjárfestingu sem þegar hefur skilað miklum hagnaði.

Þau hafa viljandi haldið leyndum olíulekum, slysum, bókhaldsmistökum, og óvirkum bætiefnum, í leit að gróða.

Þau gefa fólki villandi upplýsingar og binda þau í viðjar óttans með stjórn þeirra á fjölmiðlum.

Þau hafa skrifað undir samninga um að myrða fanga jafnvel þótt þeim hafi verið gerð ljós alvarlegar efasemdir um sekt þeirra.

Þau hafa haldið nýlenduhyggju við líði heima við og erlendis. Þau hafa tekið þátt í pyntingum og morðum á saklausum borgurum í öðrum löndum.

Þau halda áfram að smíða gjöreyðingarvopn svo að ríkið haldi áfram að kaupa af þeim.*

Til alls mannkyns,

Við, Allsherjarsamkoma New York borgar, sem stöndum að yfirtöku Wall Street á Frelsistorgi, hvetjum ykkur til að staðfesta vald ykkar. Notið rétt ykkar til að safnast friðsamlega saman, taka yfir almenningsrými, skapa ferli til að takast á við þau vandamál sem við okkur blasa, og búa til lausnir sem öllum eru aðgengilegar. Öllum hópum sem fara út í aðgerðir og mynda hópa í anda beins lýðræðis, bjóðum við aðstoð, skrásetningu, og allt annað sem við getum veitt.

Gangið í lið með okkur og látið raddir ykkar heyrast!

*Þessar umkvartanir eru ekki tæmandi.